Forseti Íslands, Guðni Th. Jóhannesson, setti alþjóðlegu vísindaráðstefnuna Cryosphere 2022 í Hörpu í morgun. Veðurstofa Íslands heldur ráðstefnuna þar sem fjallað er um afdrif íss og snævar í hlýnandi loftslagi jarðar. Um 150 vísindamenn taka til máls á ráðstefnunni sem lýkur á föstudaginn, en alls sækja fleiri en 330 vísindamenn ráðstefnuna frá 33 löndum í 6 heimsálfum.
Guðni Th. Jóhannesson forseti bauð erlenda vísindamenn sérstaklega velkomna til Íslands, land sem hæfði ráðstefnu um ís, snjó og vatn. Guðni vonaðist til þess að dvöl þeirra á Íslandi muni verma hjartað þó svo að á sama tíma sé verið að fjalla um afleiðingar af gjörðum mannanna sem eru að verma loftslag jarðar.
„Við þurfum að grynnka fótspor okkar á móður jörð og stíga skref í þá átt sem vísindi beina okkur“ sagði Guðni jafnframt í ávarpi sínu. „Vísindin þurfa að vera vettvangur heilbrigðra skoðanaskipta, hugmynda og upplýsingagjafar, en líka stöðugt samtal á milli sérfræðinga og fræðasamfélagsins annars vegar og stjórnvalda og almennings hinsvegar“.
Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis- orku- og loftslagsráðherra, tók undir orð forsetans um mikilvægi vísinda. „Stjórnvöld þurfa á þekkingu vísindamanna á freðhvolfinu að halda til að byggja sínar áætlanir og ákvarðanir á“, sagði Guðlaugur Þór. „Við þurfum að efla vísindin og afla meiri þekkingar hvað varðar áhrif loftslagsbreytinga, en nú þegar vitum við nóg til þess að átta okkur á því að það þarf að bregðast við þeirri þróun sem á sér stað“, segir Guðlaugur Þór. „Við erum ekki að gera nóg til að bregðast við loftslagsbreytingum og þurfum að gera betur og það er mikilvægt að vísindamenn þessarar ráðstefnu komi skilaboðum sínum skýrt á framfæri“, segir ráðherra í ávarði sínu.
Aðalritari Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar, Petteri Taalas, ávarpaði einnig ráðstefnugesti og notaði tækifærið til að óska Veðurstofunni til hamingju með glæsilega ráðstefnu og sagði að veðurstofur væru lykilstofnanir þegar kæmi að miðlun áhrifa loftslagsbreytinga og til að vara við afleiðingum þeirra. „Þar má nefna viðvaranir vegna náttúruvár líkt og þær sem Veðurstofan birtir og hefur þróað undanfarin ár “ sagði Petteri Taalas. „Viðvaranir og kerfin sem þær byggja á er mikilvægt að þróa enn frekar svo að þau nái yfir alla vá tengdri loftslagsbreytingum og sú þróun þarf að eiga sér stað á heimsvísu“, sagði Petteri meðal annars í sinni ræðu.
Hörður Arnarson, forstjóri Landsvirkjunar ávarpaði einnig ráðstefnugesti, en Landsvirkjun er mikilvægur samstarfsaðili vísindastofnanna þegar kemur meðal annars að rannsóknum á jöklum landsins og styrkti þessa ráðstefnu með rausnarlegum hætti. „Vísindastofnanir og ekki síst Veðurstofa Íslands, hafa verið mikilvægir samstarfsaðilar okkar í áratugi“ sagði Hörður meðal annars í ávarpi sínu. „Niðurstöður rannsókna og líkanreikninga sem gefa okkur vísbendingar um vatnsbúskap jöklanna til framtíðar er afar mikilvægt innlegg í okkar áætlanir og hefur áhrif á það hvernig við högum rekstri. Breytingar á jöklum eru mjög hraðar og sláandi, en þarna eru líka tækifæri sem við þurfum að nýta með skynsamlegum og sjálfbærum hætti“ segir Hörður.
Á fyrsta degi ráðstefnunnar verða flutt yfirlitserindi um rýrnun stóru ísbreiðanna, hlýnandi veðurfar og loftslagssögu. Fjallað verður um áhrif hlýnunar á vatnafar á norðurslóðum, rætt um útbreiðslu og þykkt hafíss og gerð grein fyrir sambúð norðurskautsþjóða við veröld ísa og snjóa um aldaraðir. Skyggnst verður um í Himalayafjöllum og gerð grein fyrir áhrifum hlýnunar á afrennsli til stórfljóta Asíu. Einn forystumanna milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsmál (IPCC) mun gera grein fyrir nýjustu niðurstöðum nefndarinnar.